föstudagur, nóvember 18, 2005

Antik..

Heimilinu hefur áskotnast nýr fákur. Eldgamalt silfurlitað dömuhjól. Það eru á því einir þrír gírar, og ég tek það fram, dömur mínar og herrar, að það er ekki hægt að skipta um gír á ferð. Það er bögglaberi, ljós knúið af framhjólinu, áfastur inn-út-inn-inn-út lás, leðurhnakkur og bremsur í pedulunum. Ég elska hjólið voðalega heitt og hef eiginlega sótt um skilnað við Birdie. Allvega í bili. Það er líka betra að hjóla í vinnuna. Sérstaklega vegna þess að ég get engan vegin valið mér rétta skó í hálku og er þess vegna bara á rassinum alla leiðina

Annars er ég að flytja um heila 0,74 metra og er þessa dagana að hreinsa út úr 6-8 fermetra herberginu sem að ég hef verið í í bráðum 20 ár. Herbergið er lítið, mjög lítið, en við þessa tiltekt hafa ótrúlegustu hlutir komið í ljós. Hér eru dæmi:

- Öll auglýsingapóstkort sem gefin voru út fyrstu tvö, þrjú árin. Ég var heitur safnari
- Sex til átta ára gamlir bíómiðar á t.d. Scream
- Allir trélitir sem að ég hef nokkur tíman komið við
- Bréfsefnasafn, öllu hent vegna gulnunar
- Servéttusafn
- Væntanlega yfir 100 tómir pokar utan af filmum sem fóru í framköllun í Bónus á sínum tíma
- Alltof, alltof, alltof mikið af loðnu dóti (loðnir rammar, pennar, pennaveski..)
- Bæklingar um hina ýmsu staði og söfn í heiminum. Ég trúði því þegar ég var yngri að maður yrði að taka bækling á öllum stöðum sem að maður heimsótti
- Allskonar útkrotaðir miðar sem á sínum tíma höfðu mikið tilfinningalegt gildi og létu mig jafnvel fara að grenja en gera ekkert í dag, ena að vera fyrir að sjálfsögðu
- Mjög mikið af óáteknum sem og áteknum filmum. Allstaðar í herberginu

Og ég er ekki einu sinni búin að hreinsa út úr 1/5 af herberginu. En nú ætla ég að sofa.

(Gummi, sorrý ég er ekki alveg að standa mig..)

0 ummæli: