sunnudagur, september 11, 2005

RoboLab, Sporðdrekinn og Simba

Ég held að þetta hafi verið með merkilegri helgum síðustu mánaða. Ég fékk mér t.d. eingöngu einn lítinn sopa af bjór (sem að segir ýmislegt misjafn um sjálf mig). Megninu af helginni eyddi ég á Legokubbanámskeiði. Ég var yngst og sú eina án uppeldismenntunnar. Þarna voru saman komnir 25-30 kennarar (og ég offkors) til þess að læra að kubba vélmenni og prógramma þau til þess að gera hitt og þetta. Eins og t.d. að stoppa fyrir framan bolta, taka hann upp og stoppa við ákveðin birtuskilyrði.
Ég var í liði með stærfræðikennara frá Sauðaákróki. Upp komu ýmsir listrænir ágreiningar. Ég vildi t.d. ekki hafa vélmennið á hjólum heldur hálfgerðum löppum. Þegar við sættumst á að hafa vélmennið á dekkjum vildi hún hafa það á formúludekkjum en ég torfærudekkjum. Átti vélmennið að vera með kló eða kassa til þess að fanga boltann? Fjórhjóladrifið eða afturhjóladrifið? Með vængi eða án þeirra (þó eingöngu til skrauts)? Vandamálin voru misjöfn. Við gerðum t.d. alltof flókin gírkassa og vélmennið okkar átti því erfitt með að fara upp brekku. Svo snérust dekkin í sitt hvorta áttina. Svo keyrði það bara í hringi.
Skemmtilegast var þó að fylgjast með fullorðnu fólki (sumir orðnir afar og ömmur) rífast um álíka mál og ég og liðskona mín. "Nei, ég vil ekki hafa græna plötu, ég vil hafa gráa" "Hey, eruð þið að stela hugmyndinni okkar? Sko, mér finnst að þau eigi að fara fram að kubba!" "Hver stal ljósskynjaranum mínum? Halló! Hver er að svindla?" "Sko, þú ert ekki að kubba þetta rétt! Hefuru aldrei séð Lego áður eða?"

Þurfti svo að tala 27 ára samstarfsmann minn (sem er jakkafatamaður að degi til) af því að rífa niður nýja gifsvegginn til þess að ná í Playstation fjarstýringu. Hann fékk lánaðann Fifa og einhvern annan fótboltaleik í staðinn. Hann var að fara í þriggja manna piparsveinapartý með vinum sínum sem kenndir voru við Magnara og Ljós. Það þótti mér skondið.

Og í Eymundsson í dag var lítill strákur sem gekk um með plastsveðju (svona eins og Simba hefði átt). Í matahléinu mínu sá ég henn svo myrða sjálfan sig, með miklum tilþrifum, fyrir framan BabySam. Ímyndaðblóð, innyfli, öskur og allur pakkinn.

0 ummæli: