þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Mamma mín er kennari

Ég segi eins og Tobbi. Ég skammast mín. Ekki fyrir það að mamma mín sé kennari. Nei, ég er frekar stolt af því. En ég skammast mín engu að síður að vera, líkt og Tobbi benti á, að vera skyndilega komin aftur til ársins 1830.

En þar sem mamma mín er kennari hafa þessi mál verið rædd í þaula hér á heimilinu. Og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það sé best að leggja niður menntamálaráðuneytið. Menntamálaráðuneytið og menntamálaráðherra(frú) eru hvort eð er að skíta á sig. Til rökstuðnings má t.d. nefna að fólk virtist almennt ósátt við samræmd stúdentspróf (sem eru jú efni í aðra færslu, en látum það vera). Það er líka ótrúlegt að fólk (lesist menntamálaráðherra(frú) og starfsmenn menntamálaráðuneytissins) hafi ekki áttað sig á því fyrr að '88 árgangurinn væri svona stór og kæmist hreinlega ekki fyrir í menntaskólum landsins.

En í þessum verkfallsumræðum hefur menntamálaráherra(frú) sýnt og sannað (að minnst kosti fyrir mér og móður minni) að starfið er með öllu óþarft. Ég hef reyndar ekki fylgst grant með fréttunum né reynt af mesta afli að lesa allar blaðagreinar um verkfallið en í þau fáu skipti sem ég hef heyrt í menntamálaráðherra(frú) þá hefur hún ætíð verið að tala eitthvað bull. Um daginn voru t.d. umræður í útvarpinu frá alþingi þar sem stjórnarandstaðan krafðist aðgerða að hálfu menntamálaráðherra. Þar var m.a. bent á að kennarar hefðu gert allt sem þeir gátu til að koma í veg fyrir þetta verkfall og reynt að semja áður en grípa þyrfti til aðgerða sem þessa. Það eina sem menntamálaráðherra(frú) hafði um málið að segja var að Össur og Kolbrún væru ómálefnanleg. Punktur.
Og í gær vær hún í sjónvarpinu að tjá sig um kosti og galla RÚV (í sjónvarpsþætti sem var svo illa unnin að hann er líka efni í heilt blogg í viðbót, en látum það eiga sig í bili). Merkilegt að þetta skuli vera það sem henni finnst hún þrfa að tjá sig um. Og merkilegt að hún hafi ekki meira um málið að segja.

Svo, menntamálaráðuneytið, sem á víst m.s. að sinna menntamálum virðist vera með öllu óþarft. Gefum okkur það að það kosti tvær milljónir á mánuði að reka ráðuneytið (það er væntanlega miklu meira þar sem ráðherran fær eitthvað um milljón á mánuði). Með þeim pening væri t.d. hægt að hækka laun 100 kennara um 20.000 kr. á mánuði.

Ég er farin að kasta snjóboltum í menntamálaráðuneytið. Bless.

0 ummæli: