föstudagur, júní 18, 2004

Sautjándi júní

Ég átti bara þó nokkuð skemmtilegan sautjánda júní. Venjulega á ég öngvan sautjánda júní sökum þess að ég vinn allan daginn. En í dag vann ég bara frá tvö til átta og þá mátti ég bara fara. Það fannst mér gaman. Til þess að bæta upp fyrir síðustu fjóra sautjánda júní þá fékk ég mér tvisvar kandíflos og eitt snuð. Reyndar fannst mér og BjörgU snuðin ekki svo saklaus líkt og þau voru í gamla daga. Okkur hlotnaðist líka gasblaðra ókeypis. Íþróttafélagið Valur gaf okkur hana og vildi endilega að hún héti Valur (gasblaðran sko, sem var í líki gíraffa). En við vorum svo móðgaðar að Valur hefði stolið öllum dósunum okkar að við skírðum gíraffan Hamma (sem er stytting á Hamrahlíðarkórinn). En það var pottþétt tvennt sem var skemmtilegast..
Glymskrattarnir voru alveg ógeðslega rosalega viðbjóðslega skemmtilegir. Ég tel að hér sé komin arftaki Hrekkjusvínanna og þessháttar hljómsveita. Og þannig hljómsveitir þykja mér gífurlega skemmtilegar. Og það er svo auðvelt að dilla sér með tónlistinni og brosa og hlægja. Auk þess er allt fólkið í hljómsveitinni svo fallegt og hæfileikaríkt. Þau eru dæmd til frægðar.
Harmónikkuballið í Ráðhúsinu var ákaflega góð skemmtun. Þangað fór ég í fylgd með góðu fólki (Guðmundur Einar meðtalinn). Ég og Kári, Björg (sem var þá í þjóðbúning) og Tyrfingur tókum m.a.s. sporið. Fyrst ætluðum við reyndar ekki að þora út á gólf vegna þess að við héldum að einhverskanr sjóv væri í gangi. Svo reyndist ekki vera. En við vorum auðvitað rosalega góð að dansa, svo góð að allt hitt fólkið var alltaf að rekast utan í okkur (ekki öfugt sko) og reyna að bola okkur út af dansgólfinu. Ég og Kári vorum reyndar alveg rosaleg, þó ég segi sjálf frá. Fólk stóð alveg agndofa..

Ég hlakka satt að segja til þess að fara í þjóðbúninginn minn á morgunn. Hann er afskaplega fagur. Og nú ætla ég að sofa. Bless

0 ummæli: