Forsaga
Eigandi Lækjarbrekku er skyldur konunni hans Lárusar Rektors. Mamma eigandans vinnur við uppvask og annað á Lækjarbrekku (til að fyrirbyggja allan misskilning þá heimtar hún að vinna við það, sama hvað býðst). Einu sinni kom Lárus ásamt fleirum úr fjölskyldunni í mat og fórum ég og Sigríður (mamman) að ræða um tengsl okkar við fjölskylduna og ég segi "Já ég var nú einmitt með dóttur þinni í Skotlandi" en segir Sigríður þá "Sólrúnu? Nei hún er ekki dóttir mín, hún er dóttir systur minnar". Ég tók því bara og hélt áfram að vinna.
Miskilningur mánaðarins
Það var ekki mikið að gera á þessum ljúfa sunnudegi, ágætt en ekki of mikið þó. Ég er eilítið þunn, afskaplega þreytt og mjög nývöknuð. Ég stend við uppvaskið og er að tína glös í grindurnar. Sigríður stendur við þvottavélina og segir sposk á svip
- "Jah, nú er Sólrún bara komin með kærasta!"
- "Nú nú" segi ég, enda of rugluð svona í morgunsárið til þess að gera mér grein fyrir hvað konan er að tala um.
- "Já, hann er sko enskur, hún kynntist honum bara í London"
- "Já er það" segi ég og reyni að muna hver Sólrún sé. Jú bíddu, var það ekki konan hans Lárusar? Ekki getur verið að hún sé komin með enskt viðhald í London og Sigríður sé að segja mér það yfir uppvaskinu?
- "Já, mamma hennar er m.a.s. búin að fara út að skoða hann. Hann er sko 10 árum eldri en hún"
- "Já og hún er aftur..?" ég reyni í neyð að fá upp úr konunni hver þessi blessaða Sólrún sé sem mig á að varða um kærastaskipti.
- "Já hún er 22 ára"
- "Haha, já alveg rétt.."
- "Bíddu hvernig kynntist þú henni eiginlega? Hittust þið í London eða?"
- "Ha?" segi ég en hugsa "Fokk sjitt fokk sjitt fokk sjitt fokk sjitt"
- "Já, hittust þið í London eða kynntust þið hérna?" Ó nei, nú er ég komin í klípu, allsvakalega klípu. Það eina sem ég get gert er að hlægja aðeins, ypta öxlum og segja
- "Veistu ég man það ekki" svo dríf ég mig fram að þjóna þessum eina manni sem er að borða hádegismat. Restin af deginum er afskaplega vandræðaleg og mér er mikið létt þegar Sigríður fer heim. Þá man ég líka að konan hans Lárusar heitir víst Særún... held ég!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
0 ummæli:
Skrifa ummæli