fimmtudagur, júlí 24, 2003

Af atburðum liðinna daga

Hér sit ég, ansi seint um nótt, andvaka. Ég er ekki alveg viss hver ástæða andvökunnar sé en ég er nokkuð viss um að hún sé tiltekt morgundagsins. Ég hef verið alein í kotinu síðustu daga og er að undra mig á því hvernig mér tókst að koma húsinu í það ástand sem það er í. Þannig er mál með vexti að ég hef verið að vinna, á tónleikum, að selja kökur, mála skilti, djamma eða annað og eytt innan við 8 tímum í húsinu, þ.e.a.s. á fótum. En húsið lítur út eins og hér hafi verið haldið 287 manna rússneskt matarboð, í 4 daga. Og á morgun þarf ég að taka til.

Já sem minnir mig á ansi skemmtilega sögu. Einu sinni sem sjaldnar (vil ég meina) var mamma mín að benda að það væri hrúga of fötum á gólfinu inni hjá mér. Undraðist konan hvort að þau ætti að vera þar eður ei. Eitthvað grínuðumst við með þetta og segir þá mamma "Já þetta er kannski vegna þess að hún Svetlana hefur ekki komið svo lengi". Ekki skildi ég hvað hún meinti og spyr því hver Svetlana sé "Nú, konan sem þrífur hérna! Hún Svetlana frá Úkraínu" Ekki skildi ég enn því að síðast þegar ég vissi þá vorum það við heimilisfólkið sem þrifum húsið. Að lokum komst ég að því að hin úkraínska Svetlana er karakter sem mamma bjó til í gríni því að henni finnst svo leiðinlegt að þrífa. Ég á einmitt vinnukarakter sem er mjög indæl, undirgefin, brosmild og ljúf. Hún heitir Kamilla.

Nóg um það. Síðustu daga hefur margt merkilegt og ómerkilegt á daga mína drifið. Á föstudaginn fór ég á gay pride ball og það var gríðarlega skemmtilegt. Ég fann líka mjög ljótan leðurjakka í blómabeði og ef einhver þekkir Snædísi Þráinsdóttur, 200885-2609, vill hinn sami þá skila til hennar að ég sé með jakkan sem og debetkortið sem var í vasanum. Á laugardaginn fór ég á magnaða tónleika með Nöfnu minni Gröndal. Ja hérna, ef ég bara væri hún. Á sunnudaginn seldi ég kökur, á mánudaginn fór ég í paintball, út að borða og í karókí, á þriðjudaginn var ég oggulítið þunn, öll út í ókunnugum sárum og marblettum og undarlega hölt sem leiddi til rándýrrar heimsóknar á slysó um kvöldið. Í dag gerði ég svo ekki neitt nema vinna.

Þið þurfið ekkert að lesa meira, ég er nefnilega búin að reyna trixið með að lesa bók þangað til að ég sofna svo að ég ætla að reyna að skrifa þangað til að ég sofna..

0 ummæli: