miðvikudagur, júní 25, 2003

Af ævintýri lífs míns

Varúð! Væmnimælir: HÁR

Hér á mínu ísa kalda landi, þar sem sólin og rokið eru bestu vinir, sit ég í eymd og kveinka mér undan peningaleysi, bakverkjum og kvöldvinnu. Mig dreymir um Egyptarland þar sem ég fór aldrei á fætur fyrr en á hádegi því það var einfaldlega of heitt. Þar voru viftur í trjánum sem kældu mig þar sem ég sat í skugganum af stráskýlunum í litlu paradísinni minni og reykti vatnspípu með eplabragði. Í girðingu rétt hjá trjágöngunum var hvítur hestur og við girðinguna var bananatré og mangótré. Þangað læddist ég oft með Jakobi og stal mér ávöxtum sem voru, ólíkt hér á landi, sjóðheitir frá sólinni. Mig dreymir um markaðinn þar sem ég reifst við kryddsala um of hátt verð á saffroni (rúmlega 150 kr. fyrir hált kíló), keypti bestu þurkkuðu apríkósur á hnattkringlunni og sá arabískan albinóa sem vann við það að selja fólki klaka sem hann skar af risastóru klakastykki. Á marðkaðnum vildu allir selja mér skó fyrir 100 kr. og eltu mig jafnvel í korter til þess að fá mig til þess að kaupa. Á markaðnum fékk ég bónorð að meðaltali tvisvar á klukkutíma. Og á markaðnum hittum við brjálaðan kryddsala sem neitaði Miguel að fara úr búðinni og reyndi að draga hann til baka með þeim afleiðingum að hann var nánast rifinn í tvennt af kryddsalanum og Line sem héldu í sitthvora hendina og reyndu að draga hann í sitthvora áttina. Aldrei hef ég séð jafn mikið af glansandi og litríkum hlutum og aldrei hef ég keypt ís úr frystikistu sem var þegar bráðinn undan hitanum. Ég man eftir sléttuhundunum og salamöndrunum í sturtunni og ég man eftir öllum vinkonum mínum, Moskítóflugum. Á hverju kvöldi dönsuðum við í marga klukkutíma og stundum svo mikið að við fórum ekki að sofa fyrr en sólin kom upp og garðyrkjumaðurinn kom til þess að vökva garðinn. Hann gerði það með því að búa til litla sundlaug í grasinu sem var alltaf horfin tveimur tímum seinna. Bak við húsið var róla en á vissum tíma dags var ekki hægt að nota hana vegna þess að sandurinn var of heitur til þess að labba að rólunni. Eina nótt batt Jakob fyrir augun á okkur og leiddi okkur lengst út í eyðimörkina. Þegar hann leyfði okkur að sjá þá leið mér eins og í barnabók. Í minningunni er þetta allt eins og barnabók.

0 ummæli: