sunnudagur, desember 25, 2005

Svona eru jólin

Gleðileg jól elsku lesendur!

Þessi jól hafa verið með undarlegasta móti. Í fyrstu ætlaði mamma alls ekki að kaupa jólatré og þessari ákvörðun hennar virtist alls ekki haggað. Um stund hugsaði ég að það myndi e.t.v. virka að láta eins og lítið barn. Grenja, stappa niður fótunum, leggjast í gólfið og svo fram eftir götunum, þar til hún myndi láta undan og kaupa tréið. Það virðist allavega virka þegar litli frændi minn gerir það, þá er allt látið undan honum. Nei, bíddu. Hann er lítið barn.
En engu að síður hringir mamma í mig á sunnudagseftirmiðdegi og spyr hvort að við eigum nú ekki að skella okkur að kaupa jólatré. Ég var öll upp með mér og af stað héldum við í jólatrésleiðangur. Ég áttaði mig fljótlega á því að mamma var eingöngu að kaupa tréið til þess að ég hætti að röfla um að það yrði ekkert jólatré og að þetta yrðu þess vegna ömurleg jól. Jólatrésalinn byrjaði á að sýna okkur ljótasta tréið á svæðinu. Það var ca. 120 cm., toppurinn þar af um 60 cm. og greinarnar mislangar, styttri eftir því sem að neðar var litið á tréið. Ég er viss um að það var veðmál í gangi um það hver gæti selt tréið, þar var svo ljótt. Mér brá því heldur í brún þegar að mamma sagði: "Já, flott. Eigum við bara ekki að taka þetta tré?". Augun í sölumanninum lýstust öll upp af gleði þegar hann ímyndaði sér andartakið þegar að hann tæki við jólatrésverðlaununum árið 2005. Ég var fljót að drepa þær vonir. Hann sýndi okkur þónokkuð mörg ljót tré í viðbót sem mamma vildi ólm kaupa, til að drífa þetta bara af og ég myndi hætta að röfla. Að lokum fundum við lítið og sætt tré og drifum okkur heim. Ekki tók betra við því að jólatréstandurinn okkar virðist vera nokkurs konar gestaþraut og eftir rúman hálftíma vorum við ekki enn búnar að ná að festa tréið almennilega í standinum. Það stóð í ca. 50 gráðu halla, afskaplega skakkt og asnalegt. Mamma lítur og mig og segir "Æji, eigum við bara ekki að hafa þetta svona?". Jólatrésáhuginn var að drepa hana. Ég gafst upp, hringdi á aðstoð og tréið stendur nú beint, sætt og alskreytt í stofunni.

Og annað sem var undarlegt við þessu jól var að þau voru haldin í Grafarholtinu hjá systur minni, kærasta og snarbiluðu barni. Já snarbiluðu segi ég, því að hann gekk um og át skrautið af pökkunum, þá sérstaklega bjöllur og borða, og eintóman kalkúnakraft. Svo settist hann á pakkana og gekk um í hælaskónum hennar mömmu allt kvöldið. Til að spara tíma var á borðum Ammrískur tilbúin kalkún. Hann var alveg ágætur, en engu líkur hinum íslenska. Og þar sem systir mín og kærasti eru ekki vön að elda sunnudagsteikur og því um líkt var ýmislegt sem vantaði í matargerðina. Engar rauðbeður í Waldorfsalatinu, ósamstæð hnífapör, engin spariglös og svo fram eftir götunum. Skemmtilegast af öllu var þó að ekki var til neinn sósulitur í eldhúsinu. Það var því tekinn fram matarlitur og í anda rauðra jóla var kalkúnasósan lituð rauð (sem fór bleika hormónakalkúninum einstaklega vel).

En þó að jólin hafi verið undarleg voru þau samt voðalega ljúf og skemmtileg. Múmínálfarnir hafa skemmt hér fram eftir degi (fyrst að snarbilaða barnið vill bara horfa á Bubba og Bangsímon, sama hvað ég reyni, verð ég víst að horfa á ævintýri í Múmíndal án krakka), súkkulaði og jólaöl etið af bestu lyst o.s.frv. Ég er því alls ekki að kvarta. Mér finnst bara skemmtilegt að við hefðum getað haft ljótasta jólatréið í Reykjavík, í 50 gráðu halla ásamt rauðri jólasósu og ósamstæðum hnífapörum (og barni að borða kalkúnakraft og jólabjöllur).

Jes jes, merrí kristmas dír pípúl. Æ lof jú oll!

0 ummæli: