fimmtudagur, júní 02, 2005

Tuttuguogtveggja ára.. breytingarskeiðið?

Merkilegir hlutir gerast nú í lífi litlu stúlkunnar á Valhúsabrautinni. Í fyrsta lagi hef ég foreldra mína sterklega grunaða um að reyna að afneita mér. Örfáum dögum eftir að ég snéri heim, ákváðu þau að það væri tímabært að heimsækja Ítalíu enn á ný til að príla þar upp á hóla og hæðir. Það er svo sem allt gott og blessað, en mér skilst að þau séu að fara að leigja sér einhvern tjaldvagn sem þau ætla að dvelja í bróðurpart sumarsins. Ég er því bara foreldralaus. Nei, það er lygi. Björg hefur gengið mér í móðurstað, að hluta til, "Ragnheiður mín, ertu með húslyklana?" (reyndar ekki furðulegt þar sem ég læsti tvo húslykla inni í íbúðinni, mínir voru í bakpoka sem var staddur á Selfossi og einir væntanlega á Ítalíu, svo að við þurftum að keyra upp í Grafarholt til þess að sækja húslykla... tvisvar... á fjórum dögum) "Ragnheiður mín, ertu búin að taka töflurnar þínar?" "Ragnheiður mín, nú er komin tími til að vakna" "Ragnheiður mín, ekki gleyma að gefa kettinum". Björg er líka á breytingarskeiðinu og fékk sér voðalega flott perm í hárið í dag.

Í öðru lagi er þetta fyrsta sumarið sem ég mun ekki vinna á Lækjarbrekku. Tilfinningarnar eru blendar, en ég er afskaplega sátt við vinnuna mína í sumar.

Og, í þriðja lagi og algerlega mikilvægast af öllum breytingum, þá steig ég stórt skref sem stelpa/kona/kvennkynsmannvera. Það er furðulegt, en á einhvern hátt fannst mér þetta stríða gegn einhverjum lífsreglum hjá mér. Það tók mig tvo mánuði að ákveða þetta með vissu, eftir a.m.k. 10 - 12 ára umræður um þetta. Mér finnst það satt sem Sigríður Ása sagði: "Þetta er stórt skref í lífi konu"
Í dag fékk ég mér göt í eyrun

0 ummæli: