mánudagur, janúar 12, 2004

Mitt versta ofbeldisverk

Ég sá loksins Kill Bill, Vol. 1 og hún var alveg mögnuð. Og ég fór að hugsa hvert mitt versta ofbeldisverk væri. Ég hef nú svo sem aldrei verið ofbeldishneigð en ég á þó eitt frekar gróft ofbeldisverk að baki (fyrir utan nokkra verðskuldaða löðrunga sem nokkrir drengir hafa hlotið). Það eina sem ég man eftir.

Þegar ég var tæplega fjögura ára bað mamma mín þrjár stelpur að passa mig. Þær voru nú ekki svo gamlar sjálfar, öruggleg á milli tíu og tólf ára. Ég man ekki hvað mamma mín var að fara að gera sem var merkilegra en ég, en ég man að þessar þrjár stelpur voru alls ekki leiðinlegar. Eftir einhvern tíma ákváðu þær að fara í sund, án mín. Sú ákvörðun reyndist algerlega röng í ljósi þess að þær áttu að vera að passa mig, ég vildi alls ekki vera ein og var frekar ákveðin (lesist frek) ung stelpa. Og þess vegna reyndist þessi ákvörðun líka mjög afdrifarík. Ég grenjaði heil ósköp. Ég grátbað þær um að fara ekki eða taka mig með í sund. En þær vildu hvorugt. Og þar sem ég var ákveðin, úrræðalaus og í hvítum klossum, þá greip ég á það ráð að sparka af mér öðrum klossanum. Ekki vildi betur til en svo að hann lenti framan í einni, allharkalega. Þannig að þær fóru og skildu mig eftir hágrenjandi, nánast farin að öskra og ein þeirra grenjandi ef sársauka. Eftir sat ég og grenjaði úr mér augun. Litli púkinn inni í mér var þó ánægður því, let's face it, þær áttu þetta skilið.

0 ummæli: