Afi minn
Afi minn er merkilegasti maður sem ég þekki. Ég fullyrði að ég á magnaðasta afa yfir átrætt í gjörvallri Evrópu.
Afi minn er fæddur 1908 og er þess vegna talinn frekar aldraður. Það er hann hins vegar ekki. Fólk tekur yfirleitt andköf þegar það heyrir hvað hann er gamall vegna þess að það hafði áætlað að hann væri 70-75 ára. Og afi er sprækur og hefur örugglega meira úthald en ég. Um daginn var ég að fara með hann til læknis. Á leiðinni niður stigann á elliheimilinu var hann ólmur í að sýna mér hvernig maður sveiflar sér niður stigann á handriðinu. Fyrirgangur í honum var svo mikill að gamla fólkið sem var á leiðinni upp stigann snéri skelkað bakinu í vegginn til þess að víkja úr vegi fyrir afa mínum. Í níræðisafmælisgjöf fékk hann þrekhjól og á tímabili horfði hann ekki á sjónvarp nema að hjóla 3-4 km. í leiðinni.
Afi hefur unun af því að stríða fólki. Einu sinni var hann sá eini í röðinni í mötuneytinu sem gat lesið á matseðilinn. "Já hurðu, það er blaðlúsasúpa (blaðlaukssúpa) og taðreykt ýsa (soðin ýsa) í hádegismatinn". Og afþví að allt gamla fólkið var orðið svo sjóndapurt þá tók það smá tíma að fatta að afi var bara að grínast. Einu sinni var hann frekar veikur og ég fór að rölta með hann um ganginn. Þar mættum við forstöðukonunni sem spyr hvað hún geti nú gert fyrir karlinn svo honum batni "Ja, ég veit nú hvað myndi lækna mig. Að komast á almennilegt harmonikku dansiball!" Og svo tók hann fyrir hana nokkur dansspor, en það gerir hann nokkrum sinnum á dag og er sú sjón sú kostuglegasta sem ég hef upplifað. Hann þarf að taka hjartapillur en hann heldur því statt og stöðugt fram að þær pillur eigi hann að taka ef hann ætli að fara að biðja sér konu. Tja, þá verður maður svo stressaður.
Besti vinur hans heitir Lilli og er afar skondinn kall. Afi og Lilli eru yfirleitt kallaðir Gög og Gokke sökum þess sem þeir taka upp á. Eitt sumarið þegar var verið að mála húsið þá var þeim bannað að fara út að tala við málarana vegna þess að þeir héldu svo mikið show fyrir málarana að þeir gátu ekki unnið vegna þess að þeir veltust um af hlátri yfir afa mínum og Lilla.
Þegar eru haldin harmonikku böll þá hefur afi ekki undan að dansa við allar ekkjurnar. Þær eru víst flest allar eitthvað skotnar í honum. Það er sagt að þegar hann flutti inn þá umbreyttist elliheimilið, til mun betri vegar. Og afi minn er þrjóskar og frekari en nokkur maður sem ég þekki.
Þetta er einungis brotabrot af öllu sem afi minn hefur tekið upp á. Ef einhver telur sig þekkja magnaðari afa enn hann afa minn þá vil ég fá a.m.k. tíu atriði sem slá út afa minn. En það mun aldrei gerast.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
0 ummæli:
Skrifa ummæli