mánudagur, júní 09, 2003

Afmælisveislupartý

Það var nú sérdeilis rosalega gaman heima hjá mér á föstudagin, það þótti mér allavega. Margt skemmtilegt (og sumt óskemmtilegt) átti sér stað. Skemmtilegt var þegar hljómsveitin Gaur spilaði (næstum því bara fyrir mig vil ég meina) og megi hljómsveitarmeðlimir miklar þakkir hafa, skemmtilegt var einnig þegar ég, Anna Pála, Karól og Hildigunnur bjuggum til brennikjúkling í kvöldmat. Kjúklingurinn átti að vera undursamlegur, sem hann og var, en af einhverjum duldum efnum sem komust í sósuna þá varð hann alveg brennisterkur. Skemmtilegt var þegar mínir (nú)heittelskuðu Andri og Andri sungu sig inn í kjarna hjarta míns með kassagítar, hristu, undurfríðum söngröddum og t.d. öðru af uppáhaldslaginu mínu Fly Me To The Moon. Ef ég væri væmin (sem ég er ekki) þá hefði ég örugglega farið að gráta, svo vænt þótti mér um þetta. Skemmtilegt var þegar sápukúluvélin sem Helgi á, fór í gang úti á svölum og baðaði allt í uppþvottalegi. Skemmtilegt var þegar Anna Pála sigraði glæsilega Egóbústið (sem hefur farið hamförum um bloggheimana, þessi ókunnuga nafna mín og þessi ókunnugi maður hafa bæði minnst á egóbústið mitt á bloggum sínum. Þakka ykkur fyrir :) Anna Pála gaf mér hvorki meira né minna en 14 gjafir af egóbústinu og hlýtur hún því nafnbótina, Anna Pála Egóbúst-einvaldur. Annars fékk ég margt og mikið af listanum, þrjá þakkláta syni (einn mjög mjög kærkomin), fullt af gáfulegum bókum, járnauglýsingu (takk enn og aftur Karól), mikið af hlutum sem eru ekki neitt, live skemmtiatriði (sigh), glingur og eyrnalokka, tösku og margt margt margt margt fleira. Og það þótti mér ofsalega gífurlega gaman
Það var óskemmtilegt þegar löggann kom, m.a.s. fólkinu á efri hæðinni fannst það óskemmtilegt (en þau eru alveg yndisleg, konan bað mig m.a.s. að spila Eurovision svo að hún gæti dansað með í stofunni sinni!). Þegar móðir mín og faðir komu heim frá Ítalíu þá varð móðir mín alveg snælduvitlaus og ætlar að fara niður á löggustöð og heimta að fá að vita hver kallaði á lögregluna, kl. 00.00 á föstudagskvöldi. Ræðan hljómaði eitthvað á þessa leið "Ég á heima hérna, ég á þessa lóð og þetta hús og ég hef búið hér í 17 ár við hliðina á þessu fólki og ég vil barasta ekki hafa þetta rugl!" Og nú stendur hún í útidyrahurðinni og ræðir þetta af miklum móð við efrihæðarkonuna.
En allt var annars skemmtilegt og ég þakka öllum kærlega fyrir mig með harðsperrur í kinnum eftir mikið bros.

Systir mín er ennþá ólétt en í dag á hún að eignast barn, læknarnir eru m.a.s. orðnir óþreyjufullir. Ég var farin að segja fólki að hún yrði í alvöru ólétt það sem eftir lifði ævinnar.
Seinna í dag blogga ég um le dramaparte francais..

0 ummæli: