laugardagur, apríl 26, 2003

Af dimitöntum og fleira

Ekki get ég sagt að ég skilji til fullnustu færslu gærdagsins. Ég man ekki sterkt eftir því að hafa lyktað eins og gras og þó man ég nú margt. The Human Cannonball hélt, ásamt félögum sínum úr Sirkus MH, niður í bæ eftir dimmisjón í skólanum sjálfum. Ber helst að nefna ljósmyndara sem stoppaði á umferðareyju til þess að ná myndum af okkur og blessuðu fallbyssuna mína sem ég skildi ekki eftir, þrátt fyrir miklar bænir annar sirkusmeðlima. Ég einfaldlega sá ekki tilgangin í því að búa til þessa líka fínu fallbyssu og nota hana svo einu sinni. Ég var líka ansi hrædd um að fólk myndi ekki skilja hvað ég væri, þ´vi án fallbyssunnar var ég nokkuð óljós. Auk þess var fallbyssan mjög rúmgóð og máttu sirkusmeðlimir geyma hvað sem þeim listi í fallbyssunni. Ef einhver hefði innbyrgt of mikið magn áfengis þá hefði einfaldlega verið hægt að skella honum ofan í tunnuna í stað þess að skilja hann eftir. En það gerðist nú ekki, sem betur fer. Ekki skal farið í smáatriði bæjarferðar sirkusins, nema það eitt að það var gaman.
Eftir pottaferð og smá lúllerí hjá Karól, héldum við stöllur, hnífakastarinn í dulargervi fimleikastúlku og mannlega fallbyssukúlan, í fyrirpartý þar sem bjórinn var teigaður af miklum móð, líkt og hafði viðgengist allan daginn. Eftir Dimmisjónball, rölt á milli bara og mörg "nei stelpur mínar, þið eruð ekki nógu gamlar" fórum við heim að sofa. Meiningin var að endast í 24 tíma en þeir urðu víst 22 og verður ekki annað sagt en að þetta hefi verið hin mesta skemmtun í alla staði.

Nú ætla ég að fara í sumarbústað. Ég vil benda lesendum á eitt af skemmtilegustu bloggum á Íslandi, Katrínarblogg. Þó hún gleymi stundum að blogga þá eru t.d. síðustu tvær færslur alveg hreint frábærar. Dr. Love og Katrín gera góða hluti.

0 ummæli: