föstudagur, janúar 23, 2009

Til minnis fyrir mig sjálfa í framtíðinni:

Ekki strengja áramótaheit opinberlega. Þú ert dæmd til að brjóta þau áður en nýja árið kemur. (Er þó búin að gera flest allt vel og með elegans).

Að svo sögðu er best að hefja miðjan janúar sem nýtt ár með enn fleiri fögrum fyrirheitum á opinberum vettvangi um að blogga oftar. Þó fyrir engann annan en sjálfan mig. Kosturinn við bloggið, fram yfir hina gömlu góðu dagbók með pappírblöðum og tilheyrandi, er hiklaust sá að maður vandar sig meira, ritskoðar sig og vandar frásögnina með tilheyrandi kryddi, skreytingum og krúsídúllum, svo að sagan verði betri.

Af árinu 2009 er það helst að frétta að ég hef fengið mér kött og flutt tímabundið heim til foreldra minna. Í ljós kom að Leifur var ekki allur þar sem hann var séður og undir forljótum baðherbergisveggnum komi í ljós mein sem þurfti að fjarlæga hið snarasta. Baðherbergið er því fokhelt í augnablikinu og nágrannarnir alveg að tryllast yfir föður mínum sem er sjúkur í að brjóta niður veggi á milli kl. 20 og 23. Þetta er þó mjög tímabundið og gengur vonandi brátt yfir þar sem ég hugsa að ég hafi ekki mikið meira úthald að vera aftur orðin 17 ára með tilheyrandi tilkynningaskyldu um hvort ég komi í mat, hvort að ég sé með lykla, hvort að ég sé búin að snýta mér o.s.frv.
Kötturinn er snilli. Mér skildist fyrst að um fress væri að ræða og skírði hann því Leif (afhverju að eyða tímanum í að koma með nýjar ferskar hugmyndir þegar maður getur stuðst við einhverja gamla góða?). Við nánari athugun sýndist mér þó að þetta væri læða og skírði hana Míu. Núna er ég alls ekki viss og kallast hún því bara ýmislegt krúttlegt sem ekki verður upptalið hér. Kötturinn hefur nefnilega breytt mér í væmna húsfrú og við móðir mín skiptumst á sögum um hvað kisan gerði á meðan önnur okkar var í burtu (mánaðaheit fyrir febrúar: hætta að skiptast á kattasögum við móður mína og tala í dúllurödd um hvað kisan er mikil krúttsprengja).

Meira hefur gerst á þessu annars viðburðarlitla ári 2009. Við Valdís hofum stofnað óbrugðult DJ teymi og stefnum á heimsyfirráð. Við höfum ákveðið að snúa vörn í sókn við annars útbrunnum remixuðum minimalískum teknóbítum og höfum það eitt að markmiði að spila stuðtónlist. Það er ýmislegt í bígerð og pokahorninu en ef þið viljið bóka okkur þá bendi ég á síðuna okkar, DJ Nonni og Manni. Við erum snilld, ég lofa.

0 ummæli: