þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Af nýrri vinnu

Ég hef hafið dagvinnu. og ég er að reyna að finna upp eitthvað númerasystem á þessar þrjár - fjórar vinnur mínar, vinna eitt, vinna tvö o.s.frv. En dagvinnan er í bókabúð og er frábær. Ég er að líma allan daginn og raða í hillur á milli þess sem ég brosi og er sæt.

Mamma og dóttir í barnabókardeildinni. Af einhverjum ástæðum vill mamman ekki kaupa bók heldur vídjóspólu handa stelpunni, en hún vill frekar bókina Amma og þjófurinn á safninu.

Dóttirin: "En mamma, mig langar ekkert í vídjóspólu. Mig langar í þessa bók"
Mamman: "Nei, það eru að koma jól. Þú mátt fá vídjóspóluna"
Dóttirin: "En mamma, þessi bók fjallar um að leysa vandamál og það er ótrúlega gott fyrir mig að lesa hana. Ég ætla nefnilega að verða lögregla þegar ég verð stór!"

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Mamma mín er kennari

Ég segi eins og Tobbi. Ég skammast mín. Ekki fyrir það að mamma mín sé kennari. Nei, ég er frekar stolt af því. En ég skammast mín engu að síður að vera, líkt og Tobbi benti á, að vera skyndilega komin aftur til ársins 1830.

En þar sem mamma mín er kennari hafa þessi mál verið rædd í þaula hér á heimilinu. Og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það sé best að leggja niður menntamálaráðuneytið. Menntamálaráðuneytið og menntamálaráðherra(frú) eru hvort eð er að skíta á sig. Til rökstuðnings má t.d. nefna að fólk virtist almennt ósátt við samræmd stúdentspróf (sem eru jú efni í aðra færslu, en látum það vera). Það er líka ótrúlegt að fólk (lesist menntamálaráðherra(frú) og starfsmenn menntamálaráðuneytissins) hafi ekki áttað sig á því fyrr að '88 árgangurinn væri svona stór og kæmist hreinlega ekki fyrir í menntaskólum landsins.

En í þessum verkfallsumræðum hefur menntamálaráherra(frú) sýnt og sannað (að minnst kosti fyrir mér og móður minni) að starfið er með öllu óþarft. Ég hef reyndar ekki fylgst grant með fréttunum né reynt af mesta afli að lesa allar blaðagreinar um verkfallið en í þau fáu skipti sem ég hef heyrt í menntamálaráðherra(frú) þá hefur hún ætíð verið að tala eitthvað bull. Um daginn voru t.d. umræður í útvarpinu frá alþingi þar sem stjórnarandstaðan krafðist aðgerða að hálfu menntamálaráðherra. Þar var m.a. bent á að kennarar hefðu gert allt sem þeir gátu til að koma í veg fyrir þetta verkfall og reynt að semja áður en grípa þyrfti til aðgerða sem þessa. Það eina sem menntamálaráðherra(frú) hafði um málið að segja var að Össur og Kolbrún væru ómálefnanleg. Punktur.
Og í gær vær hún í sjónvarpinu að tjá sig um kosti og galla RÚV (í sjónvarpsþætti sem var svo illa unnin að hann er líka efni í heilt blogg í viðbót, en látum það eiga sig í bili). Merkilegt að þetta skuli vera það sem henni finnst hún þrfa að tjá sig um. Og merkilegt að hún hafi ekki meira um málið að segja.

Svo, menntamálaráðuneytið, sem á víst m.s. að sinna menntamálum virðist vera með öllu óþarft. Gefum okkur það að það kosti tvær milljónir á mánuði að reka ráðuneytið (það er væntanlega miklu meira þar sem ráðherran fær eitthvað um milljón á mánuði). Með þeim pening væri t.d. hægt að hækka laun 100 kennara um 20.000 kr. á mánuði.

Ég er farin að kasta snjóboltum í menntamálaráðuneytið. Bless.

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Byrgðu aftur augun þín

Ég er bara tuttuguogeins árs gömul. Ég á (vonandi) enn eftir að upplifa öll þessi andartök sem fólk segir að séu bestu andartök ævinnar; að eignast barn, að gifta sig og svo framvegis. En hér áðan var ég að svæfa Nökkva Pál. Það var rigning og þegar hann sofnaði þá kúrði hann sig í hálskotið mitt og fiktaði í hárinu mínu. Og allt varð svo fallegt á þessu andartaki.

Væmið? Kannski. En mér er alveg sama, það er fátt sem jafnast á við sofandi barn í fanginu á manni.

föstudagur, nóvember 05, 2004

Af liðinni viku

- Mamma og pabbi ákváðu að fara til Pennsilvaníu að fylgjast með forsetakosningunum. Þau voru svo reið yfir úrslitunum að þau máluðu eldhúsið hjá fólkinu sem þau gista hjá í allskonar tryllineonlitum. Þau koma aftur á sunnudaginn.
- Hér var haldið gúdd sjitt matarboð. Tyrfingur og stelpurnar hafi þakkir fyrir.
- Í stofunni hefur verið haldið rockshow á hverju kvöldi. Ég hef alltaf verið í aðalhlutverki.
- Venjulega veit ég ekkert betra en að vera ein heima. Það á þó ekki alveg við núna.
- Rúmu korteri eftir að foreldrar mínir héldu burt bilaði faxsíminn. Það væri svo sem ekkert merkilegt þar sem við notum faxsímann ótrúlega lítið. En línan flæktist við aðra línu og hingað hringdi því aragrúi af fólki að leita að Ástrúnu. Og a.m.k. 16 sinnum á dag hringdi eldri kona, sem náði engan vegin að síminn væri bilaður. Fyrst var þetta fyndið en eftir fjóra daga reif ég símann úr sambandi.
- Þvottavélin ákvað að þvo í tvo sólahringa. Ég gat ekki fengið hana til að hætta. Eina ksýringin á þessu gæti verið að henni hafi einfaldlega fundist fötin mín og skítug.
- Kötturinn hatar mig. Ég greiði honum ekki tvisvar á dag, fiksurinn er búinn og hann er of snobbaður til þess að borða kattamat.
- Síðan á föstudag hefur staðið heil bjórkippa óhreyfð í ísskápnum. Enginn vinur minn hefur viljað sötra hana með mér (og það er of seint að bjóðast til þess núna) og ég hef því hafið söfnunina "Karól heim". Áhugasamir hafið samband.
- Steini Tík fær mikið high five fyrir að lána mér 400 kr. fyrir Donnie Darko.