miðvikudagur, september 28, 2005

Klukk!

Staðreynd eitt
Það versta sem ég veit, í öllum heila heiminum, er þegar fólk lætur braka í hálsinum á sér. Þetta háir mér eiginlega í daglegu lífi. Ef að ég er í bíó eða leikhúsi eða strætó eða einhverstaðar þar sem það situr einhver fyrir framan mig sem annaðhvort hreyfir hálsin óeðlilega mikið til hliðana eða virðist ætla að braka dett ég í svona ástand þar sem ég held fyrir eyrun, humma og fer m.a.s. stundum að rugga mér. Og þegar fólk lætur braka í kringum mig þá verð ég svolítið eins og ég sé einhverf eða klikkuð.

Staðreynd tvö
Það virðist ætla að verða mér með öllu ómögulegt að ákveða hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór. Ég er víst orðin stór nú þegar en einhvern veginn finnst mér eins og "að verða stór" sé langt frammi í framtíðinni. En ég á hins vegar a.m.k. fjóra drauma sem að ég vona að eigi eftir að rætast á næsta áratug.

Staðreynd þrjú
Þegar ég var átta mánaða dó ég næstum því úr heilahimnubólgu. En mamma mín er svo ákveðin að hún hlustaði ekki á ljóta lækninn sem var á vakt.. sem betur fer.

Staðreynd fjögur
Ég er sjúk í skó, eins og margar konur. Ég á vel yfir fimmtíu pör af skóm og þegar ég skoða bankareikninginn minn þá hugsa ég oft "OK, ég á svona mikinn pening svo að ég gett eytt svona miklu í skó sem gera þá svona u.þ.b. þrjú skópör í þessum mánuði". Ég er líka sjúk í kaffi, súkkulaði, bjór, kjúkling, mojito, að fara í bíó, svart / hvítar myndar, litmyndir, grænu súpuna hennar mömmu, Apple, fifties, sixties, gamlar kvikmyndastjörnur, parmaskinku, ost (af allri tegund), bækur, Brasilíu, caipirinha.. og margt fleira.

Staðreynd fimm
Þegar ég var yngri sagði fólk stundum við foreldra mína "Hún þegir allavega á meðan hún sefur" og þau svöruðu yfirleitt "Nei, hún talar reyndar stanslaust upp úr svefni. Ég var bókstaflega gangandi talmaskína og hef verið frá því að ég byrjaði að tala. Sem betur fer, fyrir aðra og kjálkana í mér, hefur þetta eitthvað minnkað með árunum. Ég tala þó víst ennþá meira en góðu hófi gegnir. En það ætla ég ávallt að líta á sem kost.

Ég klukka mbl.is, Google, Myspace, Símaskránna og Blogger

mánudagur, september 19, 2005

Piparsveinaráð

Þú hefur ákveðið að bjóða fólki í mat. E.t.v. fólki sem að þú þekkir lítið (t.d. nýjum vinnu- eða skólafélögum). Þú uppgötvar að þú treystir þér ekki til að elda neitt, kannt e.t.v. ekki einu sinni að sjóða hafragraut (sem leiðir því rökrétt að spurningunni: "Hvað ertu þá að bjóða fólki í mat yfirleitt bjálfi?"). Þannig að þú ákveður að kaupa tilbúinn mat. En (there is always a en) þú vilt ekki að matargestirnir viti að þú eldaðir ekki sjálfur. Hafðu allan matinn tilbúin í þeim fötum sem á að bera hann fram í. Steiktu svo lauk á pönnu og violá.. þá lyktar húsið líkt og þú hafir eldað í allan dag.

Fyndna er að sá sem sagði mér frá þessu ráði hefur gert þetta sjálfur..

sunnudagur, september 11, 2005

RoboLab, Sporðdrekinn og Simba

Ég held að þetta hafi verið með merkilegri helgum síðustu mánaða. Ég fékk mér t.d. eingöngu einn lítinn sopa af bjór (sem að segir ýmislegt misjafn um sjálf mig). Megninu af helginni eyddi ég á Legokubbanámskeiði. Ég var yngst og sú eina án uppeldismenntunnar. Þarna voru saman komnir 25-30 kennarar (og ég offkors) til þess að læra að kubba vélmenni og prógramma þau til þess að gera hitt og þetta. Eins og t.d. að stoppa fyrir framan bolta, taka hann upp og stoppa við ákveðin birtuskilyrði.
Ég var í liði með stærfræðikennara frá Sauðaákróki. Upp komu ýmsir listrænir ágreiningar. Ég vildi t.d. ekki hafa vélmennið á hjólum heldur hálfgerðum löppum. Þegar við sættumst á að hafa vélmennið á dekkjum vildi hún hafa það á formúludekkjum en ég torfærudekkjum. Átti vélmennið að vera með kló eða kassa til þess að fanga boltann? Fjórhjóladrifið eða afturhjóladrifið? Með vængi eða án þeirra (þó eingöngu til skrauts)? Vandamálin voru misjöfn. Við gerðum t.d. alltof flókin gírkassa og vélmennið okkar átti því erfitt með að fara upp brekku. Svo snérust dekkin í sitt hvorta áttina. Svo keyrði það bara í hringi.
Skemmtilegast var þó að fylgjast með fullorðnu fólki (sumir orðnir afar og ömmur) rífast um álíka mál og ég og liðskona mín. "Nei, ég vil ekki hafa græna plötu, ég vil hafa gráa" "Hey, eruð þið að stela hugmyndinni okkar? Sko, mér finnst að þau eigi að fara fram að kubba!" "Hver stal ljósskynjaranum mínum? Halló! Hver er að svindla?" "Sko, þú ert ekki að kubba þetta rétt! Hefuru aldrei séð Lego áður eða?"

Þurfti svo að tala 27 ára samstarfsmann minn (sem er jakkafatamaður að degi til) af því að rífa niður nýja gifsvegginn til þess að ná í Playstation fjarstýringu. Hann fékk lánaðann Fifa og einhvern annan fótboltaleik í staðinn. Hann var að fara í þriggja manna piparsveinapartý með vinum sínum sem kenndir voru við Magnara og Ljós. Það þótti mér skondið.

Og í Eymundsson í dag var lítill strákur sem gekk um með plastsveðju (svona eins og Simba hefði átt). Í matahléinu mínu sá ég henn svo myrða sjálfan sig, með miklum tilþrifum, fyrir framan BabySam. Ímyndaðblóð, innyfli, öskur og allur pakkinn.

miðvikudagur, september 07, 2005

Við morgunverðarborðið

Nökkvi Páll: "Afi" Bendir á Davíð Oddson á forsíðu Fréttablaðsins
Ragnheiður: "Nökkvi Páll! Nei!"
Nökkvi Páll: "Nei, blhöööö" Bendir aftur á Davíð

Ég er frekar sátt við þá hluti sem ég hef lagt til við uppeldi barnsins. Ég hef reyndar aldrei skipt á jafn mörgum kúkableyjum og síðustu fjóra tímana. Barnið var augljóslega að gera mér einhvern grikk.

mánudagur, september 05, 2005

Maður spyr sig..?

Það er eitthvað rangt við þetta. Eitthvað mjög rangt. Þessi fékk verðlaun fyrir frumlegasta búninginn en hún er einmitt Audrey Hepburn. Þessi tvö voru í fyrsta sæti, enda klárlega í flottustu búningunum. Grasker og töframaður. Ég meina, er ekki alveg eðlilegt að klæða hundinn þinn upp sem belju?

Já, maður spyr sig.

sunnudagur, september 04, 2005

Ég er nokkuð viss um að þetta sms hafi ekki verið ætlað mér, þó svo að það hafi verið sent á mig..

"Hae Tanja. I am here to see a man about the horse. Thin Shailin"