Star: West Side Edition
Ég er ein af fjórum íslendingum sem stóð við áramótaheitið. Undanfarna mánuði hef ég hægt og smátt tekið upp heilbrigðari lífstíl. Ég borða grænmeti, ávexti og skyr eins og ég eigi lífið að leysa og drekk svo mikið vatn að ég gæti allt eins vökvað sjálfa mig reglulega með garðslöngu. Svo fer ég að sjálfsögðu reglulega í ræktina. Engar áhyggjur, ég mun ekki fara í spray-tan klefa, aflita á mér hárið, fá mér tribal tattú og stefna á fitness keppnina á næsta ári. Þetta er allt gert með ákveðið markmið í huga, annað en þau tvö að líða betur og líta betur út. En já, ræktin. Ég fer oftast í minnstu og ljóstustu líkamsræktastöð landsins, Þrekhúsið í Vesturbænum. Þrátt fyrir að vera lítið og ljótt (í alvöru) þá er þarna aðallega ríka og fræga fólkið. Ég hef t.d. komist að því Bubbi á afmæli á Jónsmessu í ár, landbúnaðarráðherran horfir oft á MTV eða VH1, Jóel Pálsson tekur ótrúlega mikið í bekkpressu, einn frægur og ónafngreindur hlustar aldrei á annað en teknó þegar verið er að lyfta o.s.frv. En það eru aðallega ríku húsmæðurnar sem skemmta mér mest. Ég get svo svarið það að ég er, óviljug, að læra meira og meira um lífið á Seltjarnarnesi. Fyrir utan að vita allt um hvers vegna Jón og Gunna skildu, Lúlli og Lóa fluttu af Melabrautinni, Sigga á Sævó er komin á nýjan bíl og Jónmundur er aldrei í gráum jakkafötum, þá hef ég í þessari viku komist að því hvernig eldhúsin hjá hverri og einni líta út, hvaða gólfefni er í hverju húsi og hefur verið, hvað hvert heimili er duglegt að flokka og þar af leiðandi hvað hvert heimili notar ruslatunnuna mikið, hvers vegna þær eru allar hættar að flokka mjólkurfernur, hvers vegna ein er með kattafóbíu og hvaða sálfræðingar eru tilvaldir til þess að lækna slíkar fóbíur, hvenær þær og makar þeirra eiga afmæli, hvað er best að gera í lúxusfríi á Tælandi, hvar er best og verst að fara í göngumælingu.. og svo gæti ég lengi talið. Ég held að þegar ég verð komin í tryllt form verði ég einnig orðin tilvalin í starf ristjóra "Séð og heyrt: Seltjarnarness- og Vesturbæjarútgáfa"
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
0 ummæli:
Skrifa ummæli