Einu sinni, alls fyrir löngu, var ég sex ára. Þá kostaði 18 kr. í strætó og á laugardögum fékk ég krabbapening til þess að kaupa nammi. Ég klippti allt hárið af barbídúkkum systur minnar og talaði þrefalt meira en ég geri í dag. Þar að auki boraði ég iðulega í nefið á almannafæri auk þess sem ég sagði ýmislegt gáfulegt. Alveg eins og litla stelpan á kaffihúsinu í dag sem spurði hátt og snjallt hvort að bróðir sinn væri með niðurgang, hann væri nefnilega búinn að vera svo lengi á klósettinu.
Ég rifjaði upp bernskuminningar fyrir tveimur nóttum síðan þegar ég lá andavaka af því að mér var svo kalt á tánum. Og þá mundi ég eftir því að Jón Bjarni (bróðir Jóns Odds) gat aldrei sofnað ef að honum var kalt á tánum. Og þess vegna las ég alla fyrstu bókina.
Þeir héldu lengi vel að henni Soffíu væri meinilla við þá, sérstaklega Jón Bjarna. Og einu sinni ákváðu þeir að rannsaka, hvað Soffíu væri mikið illa við Jón Bjarna. Jón Oddur fór upp til Soffíu en Jón Bjarni varð eftir niðri. Jón Oddu þóttist vera að hrína og sagði stamandi og hikstandi við Soffíu:
Hann Jón Bjarni er dáinn. Hann fór undir öskubílinn og steindó.
Þeir héldu sko að Soffía yrði bara glöð að Jón Bjarni hefði dáið.
Og nú er ég andvaka, þriðju nóttina í röð og er að hugsa um að lesa hina bókina sem ég á um Jón Odd og Jón Bjarna. Mér þykir annars hættulegt hvað ég hræðist það að eldast. Er alltaf að sanna fyrir sjálfri mér að ég sé ennþá smábarn.
Og karlmenn eru algerlega óskiljanlegir. Það er reyndar ekkert nýtt, og heldur ekkert sem smábarn ætti að vera að tala um.
Já já, ruslablogg.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
0 ummæli:
Skrifa ummæli