Ég er ofsalega leið
Óskað er eftir Karól í hlutastarf. Viðkomandi verður að vera eitthvað um 160 cm. á hæð, mjög grannur og með mikið krullað hár. Viðkomandi þarf að búa í minna en hálfrar mínútu göngufæri frá mér, eiga heitan pott í garðinum og stórt hús fullt af allskonar dóti. Viðkomandi þarf að hafa þekkt mig frá sjö ára aldri og hafa áhuga á því að búa til fjársjóðskort, teikna hafmeyjar og efnafræðiglös. Viðkomandi þarf ennfremur að vera ofsalega klár, svo klár að hann kemst inn í Arkitektaskólann í Danmörku (viðkomandi má þó ekki sækja um starfið og flytja svo til Danmerkur og skilja mig þar með eftir eina og yfirgefna). Mikilvægt er að viðkomandi sé mikill prófessor í eðli sínu og utan við sig. Aðrir kostir þurfa einnig að vera ákveðni, óstundvísi og óbilandi jákvæðni á lífið og tilveruna. Mikilvægt er að viðkomandi sé fullkomlega sáttur við sjálfan sig og líkama sinn og hafi tröllatrú á hverju sem hann tekur sér fyrir hendur. Skóáhugi er algerlega nauðsynlegur í starfinu sem og áhugi á hvers konar fötum, fylgihlutum og dótaríi. Einnig er nauðsynlegt að hafa áhuga á köttum og vera ekki jafn hrifin af hundum. Ekki er leyfilegt að vera með göt í eyrunum, nema þau sé gróin. Viðkomandi þarf að vera sáttur við það að mamma mín titli sig stjúpmóður verðandi Karólar. Einnig gæti viðkomandi þurft að koma einn í mat til mömmu minnar ef að viðkomandi er einn heima og ég er að vinna. Mjög nauðsynlegt er að viðkomandi sé hrifinn af grjónagraut og finnist gott að borða á Tapas barnum. Mikilvægt er að viðkomandi finnist gaman að hægja og bulla og skemmta sér, sem og hanga og gera ekki enitt nema kannski drekka kaffi eða kók. Viðkomandi þarf að vera bestastur í heimi.
Æ nei, ekki sækja um. Ég vil enga auka Karól, bara alvöru Karól. Ég lýsi hér með yfir þjóðarsorg í Ragnheiðarríki fram á mánudag.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
0 ummæli:
Skrifa ummæli