föstudagur, júní 13, 2003

Þolinmóði drengurinn

Ég hef ákveðið að kalla hann frekar Þolinmóður, svona eins og Þormóður, vona þó að hann verði ekki skírður Þormóður.
Þolinmóður var 15 merkur við fæðingu og 55 cm. Hann er hraustur að flestu leiti en er þó með skarð í vör, en þrátt fyrir það er hann ósköp ósköp lítill og sætur. Í gær fórum við að bjóða hann velkominn í fjölskylduna. Ég er ekki frá því að nýbökuðu amman hafi fellt tár, sérstaklega þegar hún sá að Þolinmóður er með rautt hár (ef hár mætti kalla). Þannig er mál með vexti að þegar við systurnar vorum litlar átti hún það iðulega til að rýna í hárið á okkur, sleikja á sér puttann og renna honum yfir hárið (hjátrú um að þá verði hárið rautt) og kalla síðan á föður minn "Sturla, ég sé glitta í smá rautt hár hérna". Pabbi var farin að segja bara "Já, já, flott". Hvorugar urðum við rauðhærðar (allavega ekki af náttúrunnar hendi) og var móðir mín því mjög hamingjusöm og stolt af Þolinmóði hinum rauðhærða. Ég kemst ekki hjá því að finna ósköp mikið til með litla greyinu. Hann er svo óvanur heiminum að ef sængin er blíðlega tekin af honum þá bregður honum all svakalega. Og ég finn ósköp mikið til með honum því að hann þarf að fara í aðgerð út af vörinni sem bráðast. Hann er ný kominn í heiminn eftir ansi börsulega lendingu (fékk smá sár á hausinn og fleira), allir eru að koma við hann og þá á að senda hann í aðgerð. Ég skil bara ósköp vel að hann hafi viljað vera á þægilegu floti í allan þennan tíma.
En hann er mjög vær og góður og mér þykir svakalega vænt um hann og hlakka mikið til þegar hann verður eldri og mín löleg afsökun í barnaleikhús og þrjúbíó.

Niðurteljarinn mun brátt loka, þá mun bjórskuldari taka við, því margir skulda mér einn til þrjá bjóra og vil ég gjarnan minna þá á það, fyrir hönd hins fátækanámsmanns.

Ég er farin að halda áfram að vera móðursystir...

0 ummæli: